Litli englabossinn okkar átti eins árs afmæli þann 27 október 2013. Í tilefni dagsins var haldin veisla fyrir litla herramanninn og þemað sem var fyrir valinu var Bangsímon/bangsar þar sem hann er fæddur á alþjóðadegi bangsans. Það var á nógu að taka þegar kom að vali veitinga og vorum við bara þokkalega sátt með útkomuna. Hér koma nokkrar uppskriftir og fleira frá þessum skemmtilega degi 🙂
Afmæliskakan: Bangsímon (Klikka á myndirnar til að sjá þær í fullri stærð)
Þar sem við (eða kannski aðalega ég) erum ofsalega hrifin af honum Bangsímon og félögum hans í 100 ekur skógi, var Bangsímon kaka fyrir valinu hjá dóttur minni fyrir að verða 5 árum síðan og þá var ákveðið að hafa Bangsímon einnig í aðalhlutverki á þessum merka degi sonar míns, enda hentar Bangsímon mjög vel svona fyrstu árin. Það var bökuð tveggja hæða kaka, hún var svo skreytt með hunangs pottum, girðingu, býflugum, tré, plast Bangsímon fígúru, blöðrum og að lokum skilti. Hér kemur uppskriftin af kökunni og svo aðeins neðar er uppskriftin af „Cereal Treats“ sem ég notaði til búa til tréð.
Uppáhalds Súkkulaðikakan okkar
500g hveiti
300g sykur
300g púðursykur
10 msk kakó
2 tsk lyftiduft
2 tsk matarsódi
1 tsk salt
4 egg
335g nýmjólk
260g súrmjólk
250g brætt smjör, kælt aðeins
3 tsk vanilludropar
Ofninn hitaður 175°c.
Þurrefnunum blandað saman í hrærivéla skál. Í sér skál eru eggjunum, nýmjólkinni, súrmjólkinni, brædda smjörinu og vanilludropunum blandað saman og því hellt saman við þurrefnin. Blanda vel saman og deiginu hellt í tvö stór hringlaga form eða í eina stóra skúffuköku skúffu. Bakað í 25 – 40 mínútur (fer eftir ofni, ég nota alltaf blástur)
Í bangsímon kökuna notaði ég 1 1/2 uppskrift.
Kökurnar smurðar með súkkulaðikremi:
„Cereal Treats“ Rice Krispies massi (Passar fyrir tréð)
55g smjör
300g sykurpúðar
140g Rice Krispies eða Cheerios
50g hvítt súkkulaði, brætt
Leiðbeiningarnar er að finna undir myndunum (klikka á myndirnar til að sjá þær í fullri stærð)
Fyrsta afmæliskakan:
Ég ákvað þegar ég var að undirbúa eins árs afmæli dóttur minnar árið 2009 að hún fengi sérköku eða möffins í stað hefðbundnar afmælisköku. Svo ég leitaði að góðri uppskrift af köku sem innihélt sem minnst af sykri og hvítu hveiti og varð þessi uppskrift fyrir valinu fyrir bæði dóttur mína og svo litla bangsastrákinn á eins árs afmælisdegi þeirra. Þeim báðum fannst þær alveg rooosalega góðar eins og sjá má hér fyrir ofan nutu þau sín mjög vel við að gæða sér á þeim.
Fyrsta afmæliskaka/muffins barnsins (gulrótar kaka)
2 1/2 bolli, þunnt skornar eða rifnar gulrætur
2 1/2 bollar eplaþykkni eða góður eplasafi (má nota aðeins minna magn)
1 1/2 bolli rúsínur
2 bollar heilhveiti
1/2 bolli grænmetisolía
2 egg
4 eggjahvítur
1 msk vanilludropar
3/4 bolli ósætt eplamauk
1/2 bolli hveitiklíð
2 msk matarsódi
1 msk kanill
Ofninn hitaður við 180°c
Blanda gulrótunum við 1 bolla + 2 msk af eplaþykkninu/safanum í miðlungsstóran pott.
Hitað að suðu, hitinn þá lækkaður og lok sett yfir pottinn þar til gulræturnar verða mjúkar (5-10 mínútur ef gulræturnar eru rifnar, 15 – 20 mínútur ef þær eru skornar í þunnar sneiðar) Þá eru gulræturnar maukaðar í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Rúsínunum er bætt saman við og maukað aðeins. Leyfa blöndunni að kólna.
Blanda saman í stórri skál, hveitinu, hveitiklíðinu, lyftiduftinu og kanilnum. Því næst er 1 1/4 bolla af safa, olíunni, eggjunum, eggjahvítunum og vanillunni hrært saman við hveitiblönduna. Gulrótarmaukinu er næst blandað vel saman við. Deiginu er hellt í tvö 22cm hringlagaform og bakað í ca. 35 – 40 mínútur eða hellt í muffinsform/mót. Ég notaði sílikonform (2 x 6 stk) (svona form) kæla síðan kökurnar áður en kremið er smurt á.
Ég gerði ofur einfalt Rjómaostakrem ofan á þessa einu múffins sem afmælisbarnið fékk og notaði þá: Smá rjómaost, oggulítið af flórsykri og örfáa dropa af sítrónusafa.
Bangsasamlokur:
Ég fann þetta sniðuga bangsamót á ebay á smá pening og ákvað að panta stuttu fyrir afmælið, ég bjóst alls ekki við að það væri komið fyrir veisluna þar sem það var nú sent frá Hong Kong en það var komið í póstkassann tveimur dögum fyrir veisluna ásamt bangsímon mótunum (sem ég notaði í kexið hér fyrir neðan) svo rétt áður en gestirnir komu smurði ég nokkrar samlokur, bæði grófar og fínar, skar af þeim skorpuna og þrýsti mótinu yfir þær.. útkoman var nú ekki alveg sú sama og á myndinni en ég ætla að prufa aðra týpu af brauði næst. Heimasætunni finnst bangsa samlokurnar „alveg æðððislegar“ svo þetta var skemmtileg viðbót á veisluborðið.
Bangsímon kex:
Þegar ég pantaði bangsa samloku mótið fann ég líka bangsímon og tígra form og ákvað að panta það í leiðinni. Þetta kex kom mjög vel út og var vel að því látið.
215 gr. íslenskt smjör
85 gr. hreinn rjómaostur
1,8 dl. sykur
1 egg
1 tsk. vanilludropar
7 dl. hveiti
Setjið mjúkt smjör og rjómaost í hrærivél og hrærið þar til blandan er létt og loftmikil.
Bætið sykri, eggi og vanilludropum út í hrærivélaskálina. Hrærið á meðalhraða og skafið innan úr skálinni reglulega þar til blandan er orðin mjúk og fín.
Minnkið hraðann og bætið hveiti saman við. Skafið hliðar skálarinnar oft þar til deigið hefur blandast alveg.
Deilið deiginu í 2 jafna hluta, vefjið inn í matarfilmu og geymið í kæli í a.m.k. 2 klst.
Hitið ofninn í 175° C.
Rúllið deigið út og skerið með piparkökumótum. Best er að hafa deigið vel kalt þegar það fer inn í ofn. Ef það er orðið lint er gott að setja smákökurnar inn í kæli í nokkrar mínútur áður en þær eru settar í ofninn.
Bakið í 7 – 10 mínútur þar til smákökurnar byrja aðeins að brúnast.
Fjarlægið af ofnplötunni og kælið alveg áður en smákökurnar eru skreyttar.
„Hunangs“ Hlaup:
Ég gerði nú eins og margar mæður gera þegar litla krílið er farið að borða krukkumat, að geyma krukkurnar. Ég var nú ekki alveg viss hvað ég ætti að nota þær í, ég bjó til eigin mat fyrir litla herramanninn og geymdi í frysti í klakaboxum og notaði því krukkurnar ekki í þeim tilgangi. Ég datt á þá hugmynd að endurnýta krukkurnar og setja lítin desert í hverja krukku í afmælisveislunni. Þemað var jú Bangsar/Bangsímon og ákvað að setja Jello í krukkurnar sem átti að líkjast hunangi! Ég ætlaði að vera voða sniðug að ná réttum lit á Jello-ið og blandaði bæði gulu og appelsínugulu Jello-i saman en sá eftir á að ég hefði alveg getað notað bara gult 🙂 En ég batt svo borða utan um hverja krukku og heimasætan hjálpaði svo til og stakk plastskeiðum innan undir borðann. Ég setti reyndar hlaupbangsa á botninn í hverjar krukku og hellti svo Jello-inu yfir en þar sem blandan var svo heit, bráðnaði hálfpartinn hlaupbangsinn og varð frekar seigur 🙂 Við höfðum einnig vanilusósu (sem keypt er tilbúin í fernum hér í Noregi) með fyrir þá sem vildu og margir helltu sósunni yfir Jello-ið og borðuðu með bestu lyst 🙂 Einnig væri sniðugt að búa til búðing í stað Jello eða jafnvel auðveldan ostaköku desert.
Poppkorn:
Í febrúar í fyrra þegar heimasætan hélt uppá 5 ára afmælið sitt, kom upp sú hugmynd að bjóða uppá poppkorn.. í stað þess að bjóða uppá poppkorn í stórri skál fann ég sniðmát (template) á netinu og prentaði út á milli þykkann A4 pappír og klippti út og allir krakkarnir fengu sína öskju. Við eigum til litla poppvél sem við notum til að fylla á poppöskjurnar en auðvitað er líka hægt að nota örbylgjupopp eða að poppa í potti.
Hér er linkurinn á Popkorn öskjur og hér sjáið þið leiðbeiningar.
Ég gerði einnig minni öskjur fyrir yngstu börnin og setti cheerios í þær í stað poppkorns 🙂
Snakk og fleira:
Ég var með þrjár glerskálar sem ég setti á veisluborðið, í eina þeirra var sett bangsímonkexið, aðra bangsa snakk sem keypt var hér í matvöruverslun og þá þriðju hlaup bangsa. Þetta kláraðist allt saman svona undir lokin rétt áður en gestirnir fóru heim!
Ég vona að þið hafið haft gagn og gaman af þessu innleggi, ég er einstaklega heilluð af barnaafmælum og finnst svo gaman að undirbúa veislur fyrir börnin mín.
Þá er bara að fara að undirbúa 6 ára afmæli heimasætunar sem á afmæli í lok febrúar, ekki seinna vænna 🙂
Takk fyrir innlitið allir saman.
takk fyrir innblásturinn! Alveg meiriháttar!