26 febrúar síðastliðin varð dóttir mín 7 ára. Hún vildi hafa Frozen fótbolta afmæli fyrir bekkjasystur sínar og halda síðan veisluna í Fun Park (leikjalandi) sem er hér í Kristiansund.
Fyrsta verk var að útbúa boðskort í afmælið og datt ég niður á einfalda og sæta hugmynd á netinu sem við svo framkvæmdum í sameiningu.
Það sem þarf fyrir hvern poka er:
Glær poki (keypti cellofon poka í Nille (í Noregi))
Þykkan pappír í lit að eiginvali
Heftara
3 stóra sykurpúða
2 litla sykurpúða
2 litlar eða 1 stóra saltsöng
1 appelsínugult sælgæti sem notað er fyrir nef
Ég notaði síðan svartan matarlitar túss og gerði augu, munn og díla á magann en einnig er hægt að nota litla súkkulaðidropa.
Setti saman smá texta og nokkrar myndir í Photoshop sem ég síðan prentaði á þykkan ljósbláan pappír, sælgætið er sett í pokann og pappírinn klemmdur yfir opið og síðan heft á tveimur stöðum.
Í Fun Park fá afmælisgestirnir mat að eigin vali, drykk að eigin vali og svo að lokum íspinna. Svo það eina sem við mæðgurnar þurftum að hafa fyrir var afmælis kaka. Við gerðum einfalda Frozen fótbolta köku og tókum með snakk og svo nammi poka sem stelpurnar fengu áður en þær fóru heim. Mikið þótti mér nú gott að þurfa að hafa svona lítið fyrir veislunni og þá sérstaklega þar sem mikið er að gera hjá mér þessar vikurnar bæði í vinnu, fjarnámi og á heimilinu.
Bökuð var súkkulaðikaka, hrærði saman mikið af grænu smjörkremi og því síðan sprautað á með gras stút frá Wilton. Ég átti til perlu köku sprey sem ég spreyjaði yfir grasið, svo dreyfðum við litlum snjókornum (sem keypt voru í matvörubúð) yfir kökuna, bjuggum til „fótboltamörk“ úr sogrörum. Átti smá bút af hvítum sykurmassa sem skorin var út kvöldinu áður og honum leyft að hvíla á þurrum stað sem við síðan skrifuðum á með matarlitar túss. Keypti Frozen fígúrur í Extra leker og síðan súkkulaði fótbolta og þetta notuðum við til að skreyta kökuna. Einföld og skemmtileg afmæliskaka.